Lokaleikur Víðis í riðlakeppninni þetta sumarið fór fram í rigningunni í dag í Garðiinum og lauk með sigri okkar manna 2-1 þar sem Víðisliðið yfirspilaði þrótt frá Vogum þrátt fyrir að hafa lent undir 0 - 1 í upphafi leiks.
Dagurinn hófst á því að Víðisliðið og stjórn hittust í "brunch" hjá Ella og Gullý og horfðu á Svansea vinna West Ham í mikillar óþökk Gísla þjálfara. Magnús Stefánsson bæjarstjóri mætti svo snemma á völlinn og grillaði pulsur ofan í áhorfendur. Kappinn sá var heldur lágt stemmdur, þar sem hans lið, Víkingur Ólafsvík, hafði gert jafntefli við Leikni Reykjavík í gærkvöldi, en sonur Magnúsar leikur með Víkingunum.
Leikurinn í Garðinum hófst síðan með látum á öfugum enda vallarins, þar sem Þróttarar skoruðu fyrsta mark leiksins. Leikurinn var nokkuð jafn fram í miðjan hálfleikinn en þá tóku Víðismenn völdin á vellinum og Hafsteinn þór jafnaði leikinn fyrir Víði á 33 mínútu og stóðu leikar 1 - 1 í leikhléi.
Seinni hálfleikinn áttu Víðismenn alveg og úr einni af mörgum hornspyrnum Víðis í seinni hálfleik skölluðu Þróttarar í eigið mark og staðan því 2 - 1 sem urðu lokatölur leiksins.
Eftir leik var leikmönnum beggja liða boðið í alvöru pasta rétt í Víðishúsinu að hætti kokkanemans Björns Á. Hanssonar. Afbragðs réttur sem lagðist vel í bæði leikmenn beggja liða sem og ágæta dómara leiksins.
Víðismenn sigra því C-riðilinn og munu leika tvo leiki við lið Leiknis frá Fáskrúðsfirði sem sigraði sinn lokaleik í dag í D-riðli þriðju deildarinnar 4 - 0 og tryggði sig í úrslitakeppnina á kostnað Augnabliks úr Kópavogi. Fyrri leikur Víðis og leiknis fer fram laugardaginn 1. september á Fáskrúðsfirði og seinni leikurinn þriðjudaginn 4. september hér á Garðsvellinum.
Lið Kára frá Akranesi mun fylgja Víði í úrslitakeppnina úr C-riðlinum en þeir sigruðu lið Snæfells 15 - 1 í dag þar sem helstu tíðindin voru þau að Snæfell skoraði sitt annað mark í sumar.
Nú er bara að mæta á völlinn og styðja Víði í úrsltakeppninni.
Áfram Víðir !