Fótboltasumarið í Garðinum tók snöggan enda í kvöld þegar Víðismenn töpuðu 4 - 5 í vítaspyrnukeppni fyrir Leikni Fáskrúðsfirði. Frekar ömurleg tilfinning að horfa upp á lið andstæðinganna fagna ógurlega eftir 120 mínútna leik og vítaspyrnukeppni. Engu að síður óskum við Víðismenn Leiknismönnum til hamingju og góðs gengisl í fjögurra liða úrslitunum þar sem þeir munu etja kappi við "nágranna" sína Sindra frá Höfn í Hornfirði.
Víðir tapaði fyrri leiknum 2 - 1 fyrir austan og því nægði okkur að vinna 1 - 0 til að sigra á útivallarmarkinu sem gilda meira í svona úrsláttarkeppnum. Ef hinsvegar Leiknir næði að skora eitt útivallarmark þyrftum við að setja tvö í viðbót til að sigra eða eitt mark til að ná framlengingu.
Leikurinn byrjaði ekki illa og skoraði Tómas Pálma á fyrstu mínútum leiksins. Við vorum meira með boltann og þolinmóðir og stefndi í flottan leik. Leiknismenn komust þó fljótlega inn í leikinn og áttu stangarskot og skoruðu að lokum glæsilegt mark og jöfnuðu. Leiknismenn yfirtóku restina af fyrri hálfleik eftir markið og áttu skalla í stöng úr horni en við náðum nokkrum góðum skyndisóknum og áttum skot í slá og skalla á mark af mjög stuttu færi sem markvörður Leiknis varði ótrúlega. Rétt fyrir hálfleik gaf Óli Ívar boltann fyrir en hann endaði í marki Leiknis og staðan 2 - 1 í hálfleik og bæði lið þurfa mark til að sigra. Stefndi í sóknarbolta í seinni hálfleik.
Eftir tíðindalitlar 45 mínútur í viðbót hafði hvorugu liði tekist að skora og því framlengt. Í framlengingunni bar það helst til tíðinda að þrír leikmenn fuku útaf. Einn frá leikni og tveir frá okkur. Einar Karl með tvö gul og Björn bróðir Einars með beint rautt. Hvorugu liði tókst þó að skora og vítaspyrnukeppni staðreynd.
Þar brást tveimur okkar leikmanna bogalistinn en bara einum frá Leikni og þeir því áfram í úrslitakeppninni.
Svekkjandi.
Víðismenn vilja þakka öllum þeim sem mættu á leikinn, en langt er síðan annar eins fjöldi hefur lagt leið sína á leik í Garðinum og var bílaplanið vel fullt af bílum eins og sjá má á myndinni hér til hliðar.
Takk kærlega fyrir komuna.
Víðisdrengir, stjórn og þjálfarar geta þó borið höfuðið hátt eftir sumarið þar sem upphaflega markmið sumarsins náðist mun fyrr en úrslitakeppnin hófst, en það var að ná öðru af efstu sætum riðilsins og tryggja sin í þriðju deild og lenda ekki í nýju fjórðu deildinni sem sett verður á laggirnar næsta sumar.
Spilað hefur verið að stórum hluta á ungum drengjum úr Garðinum í bland við eldri reynslubolta og var stjórnin og þjálfari ákveðin að renna blint í sjóinn með þennan unga hóp en árangurinn varð fljótt betri en menn áttu von á í upphafi.
Nú er bara að loka sumrinu með góðri Víðisgleði.
Áfram Víðir !
Myndir: Guðbrandur J. Stefánsson.