Velkomin á heimasíðu Knattspyrnufélagsins Víðis

Aðalfundur Víðis 2013

Til stendur að halda aðalfund Víðis mánudaginn 25. febrúar kl. 20:00 í Víðishúsinu.

Dagskrá venjuleg aðalfundarstörf.

Aðalfundir félaga er æðsta vald hvers félags og því mikilvægt að allir sem telja sig Víðismenn, mæti og fylgist með og láti jafnvel að sér kveða.

Stjórn deildarinnar hefur verið öflug síðustu ár og haldið vel á málum. Á fundi með KSÍ og stjórnarmönnum knattspyrnufélaga á Suðurnesjum, sem fram fór hér í Víðishúsinu í haust, sýndi sig að staða fjármála liðanna er mjög misjöfn og að knattspyrnufélagið Víðir var óneitanlega í bestu stöðunni.

Fyrirhugaðar eru áframhaldandi framkvæmdir á Víðisvellinum í sumar þar sem halda á áfram með það sem byrjað var síðastliðið sumar.

 

Úr lögum félagsins

11. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn í febrúar ár hvert.  Til aðalfundar skal boða með viku fyrirvara.  Allir lögmætir félagsmenn hafa rétt til fundarsetu, málfrelsis og tillöguréttar á aðalfundi.  Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa heiðursfélagar og skuldlausir félagar eldri en 16 ára og eru þeir jafnframt kjörgengnir í trúnaðarstöður.  Gjaldkeri skal þó vera fjárráða.  Aðalfundur telst lögmætur ef minnst 15 félagsmenn eru mættir og löglega til hans boðað.  Tillögur um breytingar á lögum félagsins skal senda aðalstjórn eigi síðar en 15. janúar.  Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur til breytinga á lögum félagsins, sem síðar koma fram ef 2/3 hlutar atkvæðisbærra fundarmanna eru því samþykkir.

12. gr.
Dagskrá aðalfundar félagsins, en þar skal fráfarandi formaður gegna störfum fundarstjóra eða skipa sérstakan fundarstjóra og fráfarandi ritari störfum fundarritara, skal vera sem hér segir:
1.  Formaður gefur skýrslu um starfsemi og framkvæmdir á liðnu starfsári.
2. Gjaldkeri gefur skýrslu um fjárhag félagsins og leggur fram endurskoðaða reikninga til samþykkis, en endurskoðaðir og samþykktir reikningar deilda skulu liggja frammi til kynningar.
3. Lagabreytingar, ef fyrir hendi eru.
4. Stjórnarkjör,
                          - kosinn formaður
                          - kosinn varaformaður
                          - kosinn gjaldkeri
                          - kosinn ritari
                          - kosinn meðstjórnendur
                          - kosnir tveir varamenn
5) Kosnir tveir endurskoðendur og einn til vara.
6) Kosið í stjórn Minningarsjóðs Ingimundar Guðmundssonar í samræmi við Skipulagsskrá, sem skal fylgja lögum þessum.
7) Kosið í nefndir og ráð félagsins.
8) Önnur mál.
Allar kosningar í trúnaðarstöður skulu vera leynilegar sé þess óskað og fara fram fyrir luktum dyrum.  Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í öllum málum þess.