Velkomin á heimasíðu Knattspyrnufélagsins Víðis

Tap fyrir enn öðru botnliðinu.

Víðismenn töpuðu 2-5 fyrir leikmönnum Kára á Akranesi á fimmtudagskvöldið hér í Garðinum í frekar jöfnum leik þar sem úrslit leiksins sýna engan veginn gang leiksins. Lið Kára situr á botni þriðju deildar og nýlega töpuðum við einnig fyrir liði Magna frá Grenivík en þá sátu þeir á botni deildarinnar. Ekki gott.

Káramenn skoruðu þrjú mörk úr hornum og eitt til viðbótar úr innkasti út við hornstöng þar sem kastað var inn á teig, líkt og tekin hefði verið hornspyrna. Einstaklega slappt að láta slíkt gerast aftur og aftur í föstum leikatriðum og sérstakt að menn ráðist ekki betur á boltann í svona stöðum. Fimmta og síðasta markið, og það eina sem ekki kom úr föstu leikatriði, kom síðan á lokasekúndum leiksins þar sem Víðismenn voru nánast hættir.

Það eftirminnilegasta við leikinn var að Róbert Ólafsson skoraði einkar glæsilegt mark og jafnaði leikinn 1-1 þar sem hann tók boltann á bringuna fyrir utan vítateig, sneri sér við og lét vaða á markið og boltinn endaði upp í "sammanum" algjörlega óverjandi fyrir markmanninn. Ólafur Ívar skoraði svo seinna mark Víðismanna úr vítaspyrnu.

Leikskýrsla leiksins.

Staðan í deildinni þegar fjórir leikir eru eftir.

Víðismenn hafa nú leikið tvo síðustu leikina án erlendra leikmanna, en þeir yfirgáfu landið í byrjun ágúst og koma ekki aftur þetta tímabilið allavega.

Víðismenn sitja nú í fjórða sæti deildarinnar og nokkuð sýnt að liðið fer ekki upp um deild og getur heldur ekki fallið niður um deild. Því er um að gera að njóta þeirra leikja sem eftir eru og reyna að verðlauna þá menn sem duglegastir eru að æfa  og eiga framtíðina fyrir sér hjá Víði.

Næsti leikur verður n.k. sunnudag,25. ágúst en þá kemur efsta lið deildarinnar í heimsókn hingað í Garðinn og hefst leikurinn kl. 13:00.

Sjáumst þar Víðismenn !


Leikmenn Víðis klárir í Víðis-Open sem fram fór 17. ágúst s.l.